sunnudagur, júní 11, 2006

rigning á mjög sterka tilfinningu í mér. rigning er uppáhalds veðrið mitt ef rokið lætur ekki sjá sig. ein besta stund lífs míns var þegar ég lenti í drauma rigningunni minni. alvöru rigningu. það var á bökkum amazon. við vorum búin að fylgjast með þessari rosalegu eldingasýningu í fjarska allan daginn. en það var komið kvöld þegar rigningin kom. við vorum nýkomin af diskóteki þorpsins. diskótekið var eina húsið í þorpinu sem var með rafmagn, ljós og tónlist. þetta var langt inní skóginum. langt frá allri siðmenningu. vegna hás geðþóttastuðuls hafði leiðsögumaðurinn okkar boðið okkur í heimsókn til þorpsins síns. í þessu þorpi lét ég þau orð falla að þarna myndi ég vilja ala upp börnin mín, sem er kaldhæðnislegt þar sem síðar um kvöldið barst mér einmitt tillaga um að verða móðir barna stráks nokkurs í þorpinu. eftir viðburðaríkan dag, hafa veitt pýranafiska, synt með vatnahöfrungum, grillað fenginn í koti hjóna sem aldrei höfðu verið annarstaðar en í kotinu sínu, ætlaði ég að koma mér í háttinn. en á sömu stundu og ég lagði höfuðið á koddann heyrði ég hvernig rigningin nálgaðist. hvernig smám saman barði hún jörðina nær og nær tjaldinu. ég fékk fiðring í magann og stökk út. á stutt buxum og hlýrabol. ég kallaði á stelpurnar hvort þær ætluðu að missa af þessu, en þær umluðu bara e-h út í annað. ég var því ein, stelpa að láta draum sinn rætast, að dansa í rigningunni. hinni einu sönnu. þetta voru svo stórir dropar að ég gat svalað þorstanum á svipstundu með því að snúa andlitinu upp og opna munninn. eins og smástelpa valhoppaði ég ein á bökkum amazon, í myrkri og hinni einu sönnu rigningu. þungum, heitum dropum. eftir einungis örfáar sekúndur var eins og ég hefði stungið mér í sundlaug. og þannig. ekki með vott af kulda í kroppnum lagði ég höfuðið á koddann.

Engin ummæli: