mánudagur, nóvember 12, 2007

í samhengi við frásögn mína af gæjanum sem saug uppí nefið er skemmtilegt að segja frá því að ég hef hrotið nær alla mína ævi.

í haust fékk ég skýringuna á því af hverju þetta stafar. ég vissi reyndar að ég hefði verið með krónsíka bakteríusýkingu í nefi til 8 ára aldurs en fljótlega fór ég að hrjóta aftur. nú hef ég fengið þá skýringu að orsökina megi rekja til atviks þegar ég var 10 ára.

þá fór ég út að leika mér niðrí skóla. við fórum í eltingaleik í kastalanum og það komu strákar að stríða okkur og elta. einn var á hælunum á mér og ég ýtti honum. en þar sem strákurinn var á línuskautum í mölinni þá datt hann aftur fyrir sig. honum brá svo mikið og reiddist að hann varð snælduvitlaus og ég flúði í ofboði. ég faldi mig á bakvið grind þar sem ég sá hann og sá líka þegar hann tók upp steinhnullung og þrykkti honum í átt að mér og ég man ekki fyrr en hann hafði lent í andlitinu mínu og blóðið var byrjað að fossa. ég grét hástöfum og hljóp heim og myndaði blóðslóð alla leið heim til mín. blóðið fossaði áfram og ég lá yfir baðinu heima þegar mamma stráksins hringdi til að fá skýringu þess að strákurinn hefði komið heim í losti. mamma og pabbi ákváðu að fara ekki með mig upp á slysló því það væri ekkert hægt að gera við nefbroti svo upp frá því hef ég verið með skakkt miðnes (brjóskið milli nasanna)og aumt nef, fundið tárin renna fram við smá nefpot, hrotið og við strákurinn höfum ekki verið vinir.

læknirinn minn sagði að það þyrfti að endurinnrétta á mér nefið ef ég vildi laga þetta en ég las á blogginu hennar sigríðar ásu að það sé nóg að rekast í hurðarkarm. mér datt líka í hug hvort málið væri kannski ekki enn búið að fyrnast þar sem það lítur út fyrir að hann raggi (örlagadrengurinn) muni verða vel stæður á næstunni og geta borgað mér bætur. kannski kæmist ég líka í séð og heyrt.

miðvikudagur, nóvember 07, 2007

í gær var ég hrjáð af hræðilegum leti/„ætlaði en gerði ekki“ degi.

vaknaði og hélt upp á kjalarnes til að brúðubílast. ætlaði að leika aðalbrúðuna í sýningunni en vegna þess að ég hafði aldrei komið við brúðuna áður hafði ég ekki alveg tökin á henni og ég lék hann ekki. veit reyndar ekki hvort það er afbrigðilegt að kunna ekki fullkomlega að leika brúðu sem þú hefur aldrei komið við áður. allavega. ætlaði auðvitað í málfræðitíma en náði ekki útaf brúðubílnum. hafði ætlað að hjálpa til með vörutalningu í eymundsson en klukkan 3, eftir tíma fannst mér of seint að mæta, þau hlytu að vera búin með þetta og tæki því ekki að mæta áður en ég færi í tónskólann. ætlaði í söngtíma kl 16.30 en fór ekki því hann féll niður. ugla sannfærði mig þá um að koma á leiksýningu stúdentaleikhússins. hafði ætlað í fimleika en fór ekki til að geta séð sýninguna. vegna roksins nennti ég ekki að hjóla uppí laugardal í hljómfræði sem ég hafði ætlað í svo ég hélt bara áfram að læra. gígja hringdi svo með tilboð um að fara á málfund í hinu húsinu á sama tíma og leiksýning. ákvað að fara frekar á fundinn í stað leikhúss. fundinum, sem ég hafði ætlað fara á, var aflýst svo ég fór ekki. á leið heim kl. 9 hitti ég starfsfólk eymundsson sem var að ljúka við vörutalninguna og hefði ekki veitt af aukahöndum.

ætlaði að leika sýningu, fara í tíma, söngtíma, vörutalningu, hljómfræði, fimleika, leiksýningu og á málfund – gerði hins vegar ekkert af þessu. Reyndar ekki bara mér að kenna en mér finnst þetta segja glöggt til um að einhver letipúki hafi náð tökum á mér.

dagurinn fór reyndar ekki bara í vaskinn – fór í umræðutíma, lærði nú eitthvað, átti góðar stundir með uglu og gígju, ræddi mikilvæg málefni við ásu í hinu húsinu og plataði svo magga með mér í útihlaup á álftanesi.

á að vera að skrifa ritgerð núna en er að blogga, er búin að sofa yfir mig og eyða 2 og ½ klst í matartíma. er leikurinn að endurtaka sig?

á maður að fara í vísindaferð í fyrirtæki sem maður fyrirlítur? á ég kannski að fara til að ausa þar úr banka þrætuþarfarinnar?

þriðjudagur, nóvember 06, 2007

lifur er matur fátæka mannsins.
í gær elduðum við lifur og ragnheiður forðaði sér.

1 lifur kostar um 70 kr
1 kg kartöflur kostar um 180 kr

rúllar lifrarbitum uppúr hveiti, salti og pipar. svo steikir maður lifur upp úr sjóðandi heitri olíu og sýður kartöflur. býr til sósu úr soðinu á pönnunni, bætir bara við hveiti, vatni og kryddum. tilvalið að búa til kartöflumús með því að afhýða og stappa kartöflurnar með smá salti, sykri og mjólk.

þá ertu kominn með frábæra máltið sem kostar um 250 kr og er fyrir 3-4 manns. rosalega holl og fljótleg máltíð.

en margir myndu frekar æla býst ég við.

mánudagur, nóvember 05, 2007

ég skil af hverju það þykir ekki kurteisi að sjúga upp í nefið í frakklandi. ég var í tíma í háskólabíói og drengurinn fyrir aftan mig saug upp í nefið á nokkurra mínútna fresti. það sem vakti þó athygli mína var það að þetta var svona veikinda hljóð. hann saug upp í nefið og það var svona eins og horið og slímið safnaðist saman upp kokið og upp í munn. en þá gæti hann ekkert gert við það svo hann kyngdi því aftur. og þar að leiðandi límdist það aftur í kokið á honum. sem ylli því að leikurinn væri endurtekinn stuttu síðar. það sem þessi gæi tók svo upp á var það að fá sér epli. þetta var stórt og safaríkt epli sem hann fýsti mikið í og tók því mjög stóra og safaríka bita af eplinu. en hann var ekki svo meðvitaður um að hann væri stíflaður svo að hann reyndi að anda í gegnum eplið til skiptis við nefið sem fór svona að bubla í eins og þegar maður blæs með röri í kókómjólk eða kannski frekar þykka blómkálssúpu með vel soðnu blómkáli. orð eins og "slurp," "slarp," og "smjatt" lýsa ekki hugarástandi mínu nógu vel þessa stund en ég get ekki neitað því að drengurinn og hljóðmynd hans höfðu mikil áhrif á fyrirlestur jóns karls helgasonar um táknmyndir.

fimmtudagur, nóvember 01, 2007

oftast sofna ég á nokkrum sekúndum á kvöldin en á mánudaginn(alveg furðulegt tvíburadæmi) þá gat ég ekki sofnað. þá mundi ég nokkuð sem er virkilega afbrigðilegt en ég hef aldrei hugsað um það þannig áður. það er nefnilega þannig að þegar ég get ekki sofnað þá birtast mér fyrir sjónum tvær svipmyndir til skiptis. það eru tveir blýantsteiknaðir karlar. teiknimyndafígúrur í svarthvítu. annar er svona bollu gaur ljós allur yfirlitum með ávalar línur og lítið feitt bros. með lita, feita putta og með stutt ljóst hár. hinn maðurinn er líka teiknimyndafígúra sem er lítill og mjög horaður með svart skítugt hár og það er eins og það sé búið að krassa yfir hann. hann er veiklulegur og brosir ekki. þetta eru myndir sem ég þekki svo vel í huganum og þegar ég rifja það upp þá get ég ekki munað hvenær í ósköpunum ég fór að sjá þessa gaura. svo á milli þessara svipmynda koma svona „plobb“ hljóð eins og stór sápukúla sé að springa. hún er samt frekar eins og blaðra en það kemur ekki hvellur. ég veit ekki hvaða fordómar þetta eru í mér en mér líkar ekki mjög vel við þann granna.