ósköp hef ég verið dugleg að væla yfir óheppni minni þetta árið. ég hef spurt guð hvers vegna. en já, atvik helgarinnar hafa kennt mér að hætta þessu væli og hlæja af hlutunum. þetta gat ekki orðið skrautlegra. punkturinn var settur yfir i-ið.
ég hélt á kórárshátíð á föstudaginn. en ég stoppaði stutt. eftir að hafa sötrað einn bjór í rólegheitunum og peppað mig upp í tjúttið, var ég ekki fyrr mætt á dansgólfið að ég var lögð af stað uppá slysó. eyrað hafði laskast. í hressum dansi varð ég fyrir tönnum sem hjuggu gat á bakvið eyrað á mér.
með stórt opið sár, innan um mikið af fullu, ungu fólki og blóði, breyttist kvöldið í ævintýri. blóðstreymið var óstöðvandi og lækirnir láku niður hálsinn minn og niður á milli brjóstanna.
upplifun mín af drukknu kvenfólki á kvennaklósetti gerist ekki betri. fæstir kipptu sér upp við blóðpolla á gólfinu. sumar héldu að með því að draga mig á eintal myndi blæðingin stoppa. aðrar máttu ekki vera að því að pæla í þessu og æptu: “á enginn rauðan varalit?" - auðvitað bauð ég henni blóð. þetta var of kjánalegt til að ég gæti hamið mig.
ég hló stanslaust. ég gat ekki hætt. þetta var of fáránlegt til að vera satt. marta, með læknagenin í sér, tautaði fyrir munni sér hvar bitinn úr eyranu mínu væri. - ábyggilega á dansgólfinu. þar sem við sáum ekki fram á að loka þessu sári, var brunað uppá slysó.
ég hafði mjög gaman af því að segja frá því hvernig ég í sakleysi mínu mætti sallaróleg á kór-árshátið og hvernig dansfélaga mínum tókst að bíta í eyrað á mér í hressum dansi.
mér tókst að vera skrautlegasta tilvik kvöldsins á slysó. áfram var hlegið og starfsfólkið slóst í för. brandararnir og grínið valt fram af vörum okkar hjúkkunnar, læknisins og mörtu, sem fékk frábæra sýnikennslu. við urðum þó að róa okkur niður eftir mikið glens svo hægt væri að sauma mig almennilega án hristings.
útkoman varð; 7-8 spor í eyra og sýklalyf í viku. marta var snillingur og ragnheiður frábær félagsskapur á biðstofu slysó. en það er ekkert grín að fá mannabit.
birkir hefur snúið baki við “blæ” sem millinafni og tekið upp þjálla nafn sem mun vera "tyson". birkir tyson
sunnudagur, apríl 22, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli