miðvikudagur, janúar 09, 2008

árið 2008 hófst á því að harði-diskur tölvunnar minnar hrundi svo annállinn kemur ekki fyrr en 10 dögum of seint.

árið 2007 var viðburðaríkt ár.

janúar.
hóf árið á nokkrum dögum á ísafirði.
Hélt fljótlega aftur til andstæðu kuldabola á ísafirði frakklands til að ljúka náminu mínu og átti líka skemmtilega endurfundi við finn.
kláraði svo skólann minn.

febrúar
endurfundum var ekki lokið því ég skellti mér til barcelona með védísi eftir að skóla lauk og áður en ég hélt heim á frónið aftur.
við tók samlífi með mömmu í þverásnum þar sem 50% fjölskyldunnar voru komin til danmerkur og 1/6 í london eins og áður. lenti í flensu og leitaði mér að vinnu. skellti mér svo í stúdentaleikhúsið.

mars
Vann á hrafnistu, á frístundaheimili og í eymundsson. kvöldin voru helguð stúdentaleikhúsinu. sönglaði sitt hvað með kórnum og söng með þeim á jónasar hallgrímssonartónleikum í listasafninu.

apríl
frumsýndum leiksýninguna examínasjón sem var sannlega þrusu-skemmtileg sýning.
var bitin í eyrað á kórárshátíð og átti ógnarskemmtilega heimsókn á slysó þar sem voru saumuð í mig 8 spor.

maí
hélt aftur út til evrópu. byrjaði í london hjá melkorku, hitti svo védísi og siggu í frábæru veðri í berlín. hélt svo aftur til frakklands þar sem ég liðkaði til frönskuna og naut sólarinnar. svo til danmerkur þar sem ég hitti védísi og hélt svo með hauki út á jótland þaðan sem við tókum norrænu heim, elduðum á prímus í sturtunni og fórum í pikknikk á þilfarinu á milli þess sem ég svaf ( varð ósköp sjóveik og sjóveikipillurnar voru víst sljóvgandi). komið við í færeyjum í einn dag en síðan brunað á suðvesturhornið.

júní
byrjaði vinnu í jafningjafræðslu hins hússins. kvöldin fóru í kóræfingar og öðru hverju var unnið í eymundsson. fræðslur hófust um miðjan mánuðinn. hlaupaklúbburinn gúmmí varð til. halla, ugla, védís +. haldið var í eftirminnilega ferð á arnarstapa með vinkonuhópnum. sungið og borðað í blíðskaparveðri fram á bjarta sumarnóttina.

júlí
jafningjafræðslan hélt áfram. eymundsson um helgar. við bættust fjallgöngur um nætur, sjósund og fleira. þríeykið maggi, birkir og halla virtist órjúfanlegt. hélt til færeyja í annað skiptið á árinu. í þetta skiptið á g-festival með siggu. áttum ljúflingsstundir í nokkra daga í færeyjum. dansað undir berum himni á meðan sólin settist og reis af sama fjallinu. þegar heim var komið var haldið í fræðslu í hveragerði með reykjadalsævintýri sem reyndist afdrifaríkt.

ágúst
jafningjafræðslunni var lokið með undantekningum en í staðinn komu fleiri vaktir í eymundsson og á hrafnistu. byssupiss spilaði á ný. hélt af stað í stuttar útilegur samansettu af 2/3 þríeykisins sem reyndist víst rjúfanlegt að nokkru leyti. kóræfingar hófust á ný og haldnir voru styrktartónleikar fyrir kórinn og ásamt nokkrum fleirum gáfum við út matreiðslubók til styrktar kórnum.

september
skólinn hófst. það er nám í íslensku við hí. byssupiss breytti um stefnu og hélt pönktónleika á amsterdam. byrjaði í söngnámi. fljótlega var lagt land undir fót og haldið á vit ævintýranna í kína. ótrúleg ferð kórsins til kína væri efni í aðra eins langloku. en þar var farið til fjögurra borga, borðað yfir sig dag eftir dag af 30 réttum í hvert skipti, sungið á fjölmörgum tónleikum, setið í rútum, haldið á kínamúrinn, skoðaðir terracotta hermennirnir og svo ótrúlega margt fleira.

október
komið heim frá kína og haldnir tónleikar í háteigskirkju. skólinn tók stóran toll það sem eftir var mánaðar en ég byrjaði samt að æfa fimleika. allt í einu var ég líka orðin kærastastelpa sem ég get varla sagt að ég hafi upplifað áður, ekki á þennan hátt. en það er voðalega notalegt þegar maður er líka svona ósköp skotinn. ekki leiðinlegt þegar maður er langlúinn eftir kínaferð.

nóvember
mánuðurinn var í svipuðum dúr og október en kórinn tók aftur sinn toll og við sungum bæði á tónleikum í kristskirkju og með sinfóníuhljómsveitinni í háskólabíói. prófundirbúningur fór svo á fullt enda eins gott því að í lok mánaðarins var haldið til lettlands.

desember
mánuðurinn hófst í lettlandi þar sem ég götuleikhúsaðist í bænum kuldiga í lettlandi. það var e-s konar jólalistahátíð. stoppuðum í fjóra daga. lærdómur hafði átt að vera í brennidepli sem hann varð ekki. frábær ferð, góður hópur, gekk vel og afslappað andrúmsloft. á leiðinni heim var komið við í london og ég gaf mér tíma til að kíkja á melkorku. þegar heim var komið var svo haldið á vit prófundirbúnings og ég eyddi öllum stundum á þjóðarbókhlöðunni. loksins kláraðist sú törn og vinna tók við þar til systraskjáturnar komu loksins heim og jólin skullu á. bróðirinn kíkti líka við. við tóku boð, leti, lestur og rólegheit þar til nýja árið skall á.

Engin ummæli: