mánudagur, október 15, 2007

eftir jákvæðis-blogg á laugardaginn freistast ég til að setja inn hrakfarar-pirrings-blogg, dagsins í dag og gær, í nokkrum þáttum.

þar sem ég er svo löt að blogga nema þegar ég á að vera að skrifa ljóðaritgerð, þá ætla ég að setja inn þættina smám saman.

stundum vaknar maður og mann langar varla að fara á fætur því maður veit innst inni að þessi dagur mun verða furðulegur. þannig var dagurinn í gær.

hann byrjaði ósköp huggulega. sjávarniður, pönnukökubakstur og brunch í góðra vina hópi heima hjá steinunni björgu.1. þáttur
klukkan 1 fór ég að vinna í eymundsson. á leiðinni var ég næstum búin að hjóla á dauða dúfu (sem er einmitt innlegg 3. þáttar.) var svolítið andlaus en ekkert þó á afturfótunum. það sætti ekki tíðindum nema hvað að þybbinn, miðaldra maður af erlendu bergi brotnu með múllett kom og keypti símakort með vinum sínum. það útaf fyrir sig var ekki merkilegt nema því að maðurinn kom stuttu síðar aftur í búðina og hékk stöðugt við búðarborðið. skilningsleysi ríkti, hann tautaði um penna og blöð í láni og sitthvað fleira. mér þótti hann svolítið óþægilegur. hann starði mjög óþægilega og jafnmikið framan í mig og framan á mig. ég pældi svosem ekki í þessu fyrr en ég var búin að vinna og á leið heim. þegar ég labbaði út úr búðinni þá var maðurinn í horninu við útidyrnar, í hvarfi við búðarborðið ( ca. 2-3 klst eftir að hann kom fyrst ) og þegar hann sá mig þá strunsaði hann á eftir mér út. ég varð svo móðursjúklega hrædd að ég hentist á hjólið mitt og brunaði af stað heim. sá hvernig hann starði ennþá á mig og strunsaði í átt að mér þegar ég stóð við gatnamótin á lækjargötu svo ég þusti yfir á rauðum kalli. í bankastrætinu hitti ég siggu toll, stoppaði til að spjalla en þegar ég sá hvernig hann nálgaðist óðflugu með sitt subbulega augnaráð, hoppaði hjartað í mér og ég þusti af stað í óðagoti frá siggu sem ekki skildi upp né niður. þræddi hliðargötur þingholtanna til að hrista grey manninn af mér. ég skil ekki af hverju ég varð svona ofsalega hrædd við miðaldra mann sem vildi ábyggilega bara spyrja mig hvað klukkan væri eftir að hafa starað á barm minn í smá stund. ég kom heim rennandi sveitt og smitaði ragnheiði af hræðslunni í mér. þegar ég nuddaði spegilinn við baðherbergisþrif varð ragnheiði svo hverft við að hún stökk fram því henni heyrðist hún heyra gluggaskrjáf og var farin að ímynda sér miðaldra pólverja með múllet á gluggunum eða í eldhúsinu.

Engin ummæli: